Fólk í ferðaþjónustu í Skaftárhreppi óttast að ösku- og sandfokstrygging sem sumar bílaleigur eru farnar að bjóða uppá muni hafa slæm áhrif. Fólk muni veigra sér við að keyra inn á svæðið.
Ösku- og sandfokstrygging sem sumar bílaleigur eru nú farnar að bjóða upp á kosta tvöþúsund krónur á dag. Það getur borgað sig að trygga því skemmist bíllinn gæti fólk þurft að borga hálfa milljón króna í viðgerðir. Framkvæmdarstjóri Bílaleigu Akureyrar segir fjölmarga bíla hafa skemmst eftir gosið í Eyjafjallajökli í fyrra og tryggingarfélögin borga ekki tjón af völdum náttúruhamfara.
Karl Rafnsson, hótelstjóri á Klaustri segist, ásamt fjölmörgum öðrum, hafa áhyggjur af þessu. „Ég er auðvitað og eðlilega hræddur við að þeir erlendu ferðamenn sem ætla að taka sér bílaleigubíl hugsi sig þá um áður þeir aka inn á þetta svæði,“ sagði Karl í samtali við RÚV.
Í skýrslu sem var unnin fyrir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er lagt til að iðnaðarráðuneytið taki upp viðræður við bílaleigur varðandi sérstaks álags vegna bíla sem fara inn á svæðið.
„Það yrði náttúrlega skelfilegt fyrir okkur sem búum vestan við þetta öskusvæði ef að þetta yrði að veruleika ef að ferðamönnum yrði hálfmeina að fara inn á svæðið,“ segir Karl sem telur að eins og staðan sé í dag sé engin ástæða til að gera aðrar ferðaáætlanir. „Þeir ferðamenn sem koma inn á svæðið núna í dag, þeir undrast hvað það eru lítil ummerki eftir gosið.“
RÚV greindi frá þessu.