Orkuveita Reykjavíkur biður sumarbústaða-eigendur í Úthlíð í Biskupstungum að huga að húsum sínum sem fyrst. Vatn fraus í bakrás Hitaveitu Úthlíðar í kjölfar rafmagnsbilunar í vikunni.
Í þeim rekstrartruflunum sem urðu í kjölfar útsláttar í Landsneti rafmagns síðastliðinn þriðjudag var hitaveitan í Úthlíð ein þeirra sem varð rafmagnslaus og dælur stöðvuðust. Þegar hún var ræst að nýju komu í ljós bilanir sem reyndist tímafrekt að gera við sökum mikils fannfergis eystra. Þeim er nú lokið.
Þegar vatn komst á að nýju kom í ljós að frosið hafði í bakrás veitunnar. Það er vísbending um að innanhúss kunni einnig að hafa frosið í lögnum.
Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að það sé afar áríðandi að sumarhúsaeigendur hugi að húsum sínum sem fyrst. Mikilvægt sé að kanna hvort frárennsli hitaveitunnar sé í lagi.
Spáð er hlýnandi veðri og ef frosið er í lögnum er aukin hætta á vatnstjóni í húsum.
Bent er á að mikill snjór er ennþá á svæðinu og einungis helstu vegir ruddir, þannig að tafsamt getur verið að komast að sumum húsum.