Óvenju mikil aðsókn í ML

Óvenju mikil aðsókn er í Menntaskólann að Laugarvatni fyrir næsta námsár. Nú eru skráðir 182 nemendur í skólann en þeir voru 167 í upphafi síðasta skólaárs.

Á vef skólans kemur fram að með engu móti hafi verið hægt að verða við öllum umsóknum, þar sem bæði kennslurými og heimavistarrými eru settar skorður.

Í byrjun þessa árs voru gerðar áætlanir um nemendafjölda næsta vetrar og þá ekki síst með tilliti til niðurstöðu haustannarprófa. Í áætluninni var gert ráð fyrir nokkru brottfalli milli skólaára, bæði vegna þeirra sem ekki stæðust kröfur og einnig þeirra sem myndu sækja í annarskonar nám en það sem er í boði í ML.

Nú hefur komið í ljós að brottfall virðist ætla að vera sáralítið og í stað þeirra úr efri bekkjum sem falla út, eru komnir nýir nemendur, en fyrsti bekkur er sneisafullur.

Fyrri greinHreiðrið flaug í burt frá fuglamömmu
Næsta greinÍvar sigraði í Vestmannaeyjum