Óvenjuleg hveravirkni á Geysissvæðinu

Hverinn Blesi í ham. Mynd/Veðurstofan

Síðastliðinn laugardag fór að bera á óvenjulegri aukningu í hveravirkni á Geysissvæðinu í Haukadal, en hún hefur vakið athygli bæði sérfræðinga og heimamanna.

Engar breytingar hafa komið fram á mælum Veðurstofunnar sem gætu útskýrt þessa auknu virkni.

Fulltrúi frá Umhverfisstofnun á vettvangi staðfesti að margir hverir á svæðinu hafi tekið við sér og væru nú mun kröftugri en fyrr. Sérstök athygli hefur verið á Strokki, sem hefur verið óvenju virkur undanfarna daga og gosin hærri og kröftugri, jafnvel svo að grjót og hverahrúður hafi þeyst með gosunum. Hverinn gýs nú oftar en áður, með strókum sem ná allt að 30 metra hæð. Engar breytingar hafa þó orðið á Geysi sjálfum.

Sérfræðingar Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar og Almannavarna fóru yfir stöðuna á fundi nú síðdegis. Áfram verður fylgst með stöðunni og er unnið að því að greina orsök þessarar auknu virkni.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að jarðhitasvæði séu mjög breytileg og er alltaf einhver hætta til staðar í nágrenni þeirra vegna sjóðandi vatns og gufu. Veðurstofan biðlar því til ferðamanna á Geysissvæðinu að fara varlega og halda sig í öruggri fjarlægð frá hverunum og fylgja fyrirmælum Umhverfisstofnunar sem hefur umsjón á svæðinu.

Myndbandið hér fyrir neðan af hvernum Blesa tók Dagur Jónsson, landvörður á svæðinu.

Fyrri greinRóleg helgi hjá löggunni
Næsta greinSelfoss áfram í bikarnum