Óvenjulegur fiskdauði í botnfrosnum Stangarlæk

Þann 10. janúar barst Veiðimálastofnun tilkynning um tugi dauðra urriða í Stangarlæk í Grímsnesi en lækurinn var botnfrosinn.

Stangarlækur er fremur vatnslítill um 12 km langur lækur sem á upptök sín í Lyngdal á Lyngdalsheiði og fellur hann til Apavatns. Stangveiði hefur verið stunduð í Stangarlæk og veiðist þar bæði bleikja og urriði. Lækurinn er talinn helsta hrygningar- og uppeldsisvæði urriðans í Apavatni.

Starfsmenn Veiðimálastofnunar skoðuðu aðstæður daginn eftir og var þá botnfrosinn ís á læknum. Ekkert rennsli var á um 1 km kafla ofan þjóðvegar sem var skoðaður. Lindarrennsli var nokkur hundruð metrum neðar í læknum en þar fyrir ofan voru um 5 km ísi þaktir en með engu vatnsrennsli. Alls fundust milli 60 og 80 dauðir urriðar, flestir 30-40 cm langir og voru þeir flestir frosnir í ís. Rannsókn leiddi í ljós að þeir voru allir kynþroska og voru að hrygna þegar þeir drápust.

Engin dauð seiði fundust en telja verður líklegt að seiði á svæðinu hafi einnig drepist. Líklegt er að fleiri dauðir fiskar hafi verið í læknum undir ógegnsæjum ís. För sáust eftir mink og tófu sem geta hafa nælt sér í fiska.

Á vef Veiðimálastofnunar kemur fram að þessi óvenjulegi fiskidauði sé nokkur ráðgáta en líklegast er að lækurinn hafi verið mjög vatnslítill í haust og framan af vetri. Fiskar sem ætluðu sér til hrygningar hafa líklega ekki getað gengið á hrygningarslóð vegna vatnsleysis. Vera kann að urriðinn hafi beðið færis og frestað hrygningu vegna þessa en venjulegur hrygningartími er í október og nóvember.

Í kjölfar rigningar á annan í jólum hefur vaxið mjög í læknum og urriðinn gengið upp í lækinn. Þegar stytti upp þvarr árvatnið fljótt og frysti í kjölfarið sem hefur valdið því að fiskarnir sátu eftir og drápust.

Þótt Stangarlækur sé ekki stór er hann talinn mikilvægur sem hrygningar- og uppeldissvæði einkum fyrir urriða úr Apavatni. Hætta er á að verulegur hluti hrygningarfiska og seiða hafi farist. Það gæti haft áhrif á stofnstærð á næstu árum. Vert er gera frekari rannsóknir á afdrifum seiða á þessu svæði þegar aðstæður leyfa.

Frétt Veiðimálastofnunar

Fyrri grein„Öryggið ávallt í fyrirrúmi“
Næsta greinFSu tapaði í Smáranum