Óvissa er um fyrirkomulag strætóferða milli Selfoss og Reykjavíkur en samningar Hveragerðis og Árborgar við Sérleyfisbíla Akureyrar um daglegar ferðir á leiðinni rennur út um næstu áramót.
Fyrirtækið varð hlutskarpast í útboði á þjónustunni þegar hún var tekin upp á sínum tíma en ekki hefur verið ákveðið hvort efnt verður til annars útboðs á þessu ári.
Rútufyrirtækið Bílar og fólk hefur sent sveitarfélögunum tveimur erindi og boðist til að taka þessa þjónustu að sér og hafa forsvarsmenn fyrirtækisins átt fundi með bæjarstjóranum í Hveragerði og framkvæmdastjóra Árborgar um þetta efni.
„Þeir hafa boðið aðkomu sína að þessum akstri, en það hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði.
Hún segir ljóst að allra leiða verði leitað til að lækka kostnað sveitarfélaganna við þessa þjónustu án þess þó að það komi niður á gæðum hennar. Hvað varðar áframhaldandi samstarf við núverandi leyfishafa segir hún það mál opið.
„En það hastar nokkuð að taka ákvörðun,“ segir hún. Bein erindi hafi ekki borist frá öðrum aðilum en Bílar og fólk. „Það eru ýmis atriðiði sem þarf að skoða, t.a.m. aðkomu ríkisins að þessum mikilvægu almenningssamgöngum,“ segir Aldís.