„Ég hef alltaf vitað að ég væri ágætis teiknari, en ég fór ekki að selja myndirnar fyrr en fólk fór að spyrjast fyrir um verð. Síðan þá hefur þetta bara þróast svona skemmtilega.“
Þetta segir Selfyssingurinn Erna Kristín Stefánsdóttir en veggspjöld Ernu hafa notið þónokkra vinsælda undanfarin misseri.
Erna hannar undir merkinu Ernuland en áður hafði hún getið sér gott nafn undir nafninu StínArt. „Ég byrjaði að hanna undir nafninu StínART en eftir að ég eignaðist son minn þá breyttust áherslurnar og stíllinn um leið svo ég ákvað að opna nýja síðu fyrir nýju vörurnar,“ segir Erna.
Stafrófspandan hefur notið gífurlegra vinsælda og prýðir ófá íslensk heimili. Sunnlenska.is/Erna Kristín
„Ég er með stílhreinar myndir fyrir heimilið og barnaherbergin. Eftir áramót stækkar vörulínan svo enn frekar en þá eru væntanlegar nýjar myndir,“ segir Erna.
En það eru ekki bara Íslendingar sem kunna að meta veggspjöldin hennar Ernu. „Ég er með fínasta hóp kaupenda héðan og þaðan úr heiminum, en ég sel þær myndir í gegnum Instagram síðu Ernulands,“ segir Erna.
Sunnlenska.is/Erna Kristín
Aðspurð út í framtíðarmarkmið varðandi hönnunina segir Erna það vera óráðið. „Ég leyfi þessu algjörlega að fylgja sínum eigin straumi. Ég reyni alls ekkert á mig, ég hanna þegar ég nenni og þetta selst ef að þetta selst. Óvissan í kringum um þetta er svo skemmtileg og spennandi. Hún hefur nú þegar magnast upp og alltaf eru ný og skemmtileg tækifæri að banka uppá,“ segir Erna að lokum.
Sunnlenska.is/Erna Kristín
Hægt er að nálgast hönnun Ernu á Facebook síðu Ernulands. Áhugasamir geta einnig fylgst með henni á snapchat undir nafninu ernuland.