Laugardaginn 16. apríl stendur Suðurlandsdeild ferðaklúbbsins 4×4 fyrir opinni óvissu-jeppaferð. Þá gefst jeppaeigendum tækifæri til að reyna sig og sinn jeppa í vetrarakstri í snjó.
Lofti verður hleypt úr dekkjum og bílstjórar komast að því hvað hægt er að keyra á úrhleyptum dekkjum. Með í för verða reyndir jeppamenn á öflugum bílum til að aðstoða óvana bílstjóra. Farið verður til fjalla og veðurútlitið ræður för.
Þessi ferð er opin fyrir alla sem eru á jeppa, breyttum sem óbreyttum. Þetta verður nokkuð krefjandi ferð og því ekki ráðlegt að koma á fjórhjóladrifnum fólksbílum. Þátttakendur þurfa að koma á jeppa í góðu lagi og með nægilegt eldsneyti. Einnig þarf fólk að vera vel útbúið til útiveru, í góðum skóm og skjólfatnaði og með nesti til dagsins.
Lagt verður af stað frá Olís Selfossi kl. 9:00 stundvíslega og komið heim síðdegis sama dag.
Engin formleg skránig verður í ferðina. Þátttakendur mæta bara á Olís Selfossi fyrir klukkan níu og gefa sig fram við fararstjórana sem verða á staðnum.
Í ferðinni býður klúbburinn upp á grillaðar pylsur fyrir alla þátttakendur. Þátttakendur bera sjálfir ábyrgð á sínum farartækjum og öllum bilunum eða óhöppum sem mögulega koma upp á. Ef veðurútlit verður slæmt verður ferðinni mögulega frestað eða aflýst.
Nánari upplýsingar á Facebook