Óvissustigi aflétt

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Hvolsvelli hefur ákveðið að aflétta óvissustigi vegna vatnavaxta og hlaupa í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi.

Rafleiðnin í Múlakvísl og Jökulsá á Sólheimasandi er komin aftur í sama horf og fyrir hlaup. Á síðustu dögum hefur úrkoma haft áhrif á rennsli beggja ánna, sérstaklega Múlakvíslar.

Gasmælingar sýna samt sem áður að hættulegar gastegundir eru í jarðhitavatni sem rennur undan jöklinum. Þá hefur rafleiðni aukist í Markarfljóti við Einhyrningsflatir, sem getur bent til að jarðhitavatn renni einnig í Markarfljót frá Mýrdalsjökli eða öðrum upptakasvæðum í nágrenninu.

Í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra segir að þó svo að óvissustigi sé hér með aflétt vegna Múlakvíslar og Jökulsár á Sólheimasandi er mikilvægt að ferðaþjónustufyrirtæki og ferðamenn sýni sérstaka varkárni við Sólheimajökul vegna mögulegra gas- og flóðahættu. Ferðamenn sem fara á það svæði eru hvattir að nota frekar eldri stíginn í hlíðinni, sem liggur frá efra bílastæðinu.

Fyrri greinLögreglan rannsakar utanvegaakstur
Næsta greinBjörgvin G. ráðinn sveitarstjóri