Vegna jökulhlaups úr eystri Skaftárkatli hefur ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, lýst yfir óvissustigi almannavarna.
Landhelgisgæslan mun fljúga með vísindamenn á morgun til að kanna aðstæður.
Lögreglan á Suðurlandi, Landverðir og hálendisvakt Landsbjargar verða við eftirlit á svæðinu um helgina.
Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við lögregluna á Suðurlandi og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.
Frekari mælingar verða gerðar í og við jökulinn á næstu dögum sem gefa vonandi betri mynd af atburðarrásinni sem er í gangi.
Fólk er beðið um að sýna aðgát og tillitsemi og virða lokanir.
Óvissustig almannavarna er lýst yfir þegar grunur vaknar um að eitthvað sé að gerast af náttúru- eða mannavöldum sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar sé ógnað.
Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf á milli viðbragðsaðila.
Vegna hlaupsins er búið að loka brúnni yfir Eldvatn einnig fjallvegi 208 austan Eldgjár og við Hvamm í Skaftártungum. Einig er þeim tilmælum beint til vegfaranda að vera ekki á ferð í nágrenni flóðasvæðisins.