Á næsta sólarhring er búist við gífurlegri úrkomu víða undir Eyjafjöllum og á sunnanverðum jöklum á svæðinu. Vegagerðin verður með eftirlit með brúm og vegum á hringvegi á meðan veðrinu stendur.
Við Jökulsá á Sólheimasandi er unnið að smíði nýrrar brúar sem ekki er fullgerð og á meðan er umferð beint um hjáleið og um bráðabirgðabrú. Unnið er að því að dýpka farveginn undir brúnni og undirbúa aðrar aðgerðir sem með það að markmiði að verja bráðabirgðabrúna. Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að þrátt fyrir þessar aðgerðir sé óljóst hvort brúin standi af sér vatnsflauminn.
Komi til þess að bráðbirgðabrúnni sé hætta búin verður umferð hleypt á nýju brúna. Umferðinni verður stýrt með ljósum til skiptis í hvora átt í ljósi þess að brúin er ekki fullgerð, en brúarhandrið er til að mynda ekki komið upp. Hraði verður lækkaður tímabundið vegna þessara aðstæðna og eru vegfarendur eindregið beðnir um að virða það.
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á Suðurlandi og býst við mikilli úrkomu sérstaklega undir Eyjafjöllum og við Mýrdalsjökul. Vegfarendur sem eiga leið um óbrúaðar ár er einnig bent á að endurskoða ferðaáætlanir sínar þar sem líklegt er að þær verði mjög erfiðar yfirferðar eða ófærar með öllu.
Fréttir af ástandi og aðgerðum verða birtar jafnóðum og þær verða til á vef Vegagerðarinnar en einnig má hringja í 1777 til að fá nýjustu upplýsingar hverju sinni.