„Áætlun okkar gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu á árinu, en það er hinsvegar óvíst með áhrif kjarasamninga,“ segir Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, um rekstur sveitarfélagsins.
Nokkrir hópar úr röðum starfsmanna sveitarfélaga hafa enn ekki gengið frá kjarasamningum, og í einhverjum tilvikum eru þeir, sem til undirritunar koma, afturvirkir með tilheyrandi kostnaðarhækkun.
Ásta segir að á móti komi þá sé ýmislegt sem bendi til betri rekstrarniðurstöðu á árinu en ráðgert var. „Miðað við grófar og óendurskoðaðar tölur frá miðju ári var hallinn 136 milljónir í stað 241 milljónar,“ segir Ásta.
Hún segir lægri fjármagnskostnað og hærri tekjur hafa jákvæð áhrif á reksturinn. „En eins og ég sagði, á ég von á rekstrarafgangi þegar árið verður gert upp,“ segir Ásta.