Október mánuður er mánuður Bleiku slaufunnar, átaks- og fjáröflunarverkefnis Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini hjá konum. Í tilefni átaksins var á dögunum undirritaður samstarfssamningur milli PACTA Lögmanna og Krabbameinsfélags Árnessýslu.
Samningurinn tryggir skjólstæðingum Krabbameinsfélags Árnessýslu endurgjaldslausa lögmannsþjónustu PACTA Lögmanna.
Með honum vilja PACTA Lögmenn á Suðurlandi leggja sitt af mörkum til félagsins og landsátaks Krabbameinsfélagsins. Um er að ræða alhliða lögfræðiráðgjöf til handa félagsmönnum en ljóst er að fjölmörg álitaefni geta komið upp þegar alvarleg veikindi steðja að.
Jónína Guðmundsdóttir lögmaður PACTA kveðst ánægð með samninginn og tækifærið sem hann veitir lögmönnum stofunni til að láta gott af sér leiða í samfélaginu. Vonast hún til að sem flestir nýti sér þjónustuna.
Starfsmenn Krabbameinsfélags Árnessýslu hafa milligöngu um tímapantanir hjá lögmönnum PACTA þeim Jónínu Guðmundsdóttur hdl. og Jóni Páli Hilmarssyni hdl. og eru félagsmenn hvattir til að hafa samband við skrifstofu félagsins að Eyrarvegi 23 til að panta sér tíma.