Pálína S. Kristinsdóttir á Lyngási var útnefnd samborgari ársins í Rangárþingi ytra árið 2024. Hún var heiðruð í kaffisamsæti eldri borgara, sem haldið var að Laugalandi í Holtum síðastliðinn laugardag.
Að auki hlaut Jón Ragnar Björnsson sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf í þágu eldri borgara og sveitarfélagsins.
Markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd kallaði eftir tilnefningum íbúa síðastliðið haust og barst fjöldi tilnefninga. Pálína hlaut flestar tilnefningar að þessu sinni og er vel að heiðrinum komin.
Viðurkenninguna fær hún fyrir ómetanlega þjónustu við sveitunga sína. Pálína hefur staðið vaktina á Landvegamótum um áratugaskeið og þjónustað sveitunga og ferðalanga með bros á vör, lengst af samhliða Bergi eiginmanni sínum heitnum. Landvegamót hafa í gegnum árin verið mikilvægur samkomustaður þar sem allir eru velkomnir. Pálína hefur ekki síst tekið börnunum í sveitarfélaginu opnum örmum og hafa mörg ungmenni stigið sín fyrstu skref á vinnumarkaði á Landvegamótum. Hún býr yfir einstakri þjónustulund og eljusemi sem eftir er tekið og stendur enn vaktina.
Jón Ragnar fékk sérstaka viðurkenningu en hann var um árabil einstakur félagi og drifkraftur í Félagi eldri borgara í Rangárvallasýslu. Einnig fær hann viðurkenningu fyrir störf sín í þágu sveitarfélagsins sem meðlimur í markaðs-, menningar- og jafnréttismálanefnd á yfirstandandi kjörtímabili. Jón Ragnar býr yfir einstakri framsýni, jákvæðni og eljusemi sem eftir er tekið.
Þetta er í þriðja sinn sem sveitarfélagið býður eldri borgurum að hitta kjörna fulltrúa, þiggja kaffiveitingar og njóta tónlistaratriða saman. Á milli 60 og 70 gestir á samkomuna. Kvenfélagið Eining sá um glæsilegt kaffihlaðborð og einvalalið listafólks úr héraðinu sá um tónlistarflutning.