Páll Sigurðsson, skógfræðingur frá Litlu-Sandvík, býður sig fram í 2.-3. sæti á lista Framsóknar í Árborg fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor.
Páll er 37 ára og starfar sem skógfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann bjó á Selfossi fram að stúdentsprófi, en hefur síðan hann kom heim úr háskólanámi búið í Sandvíkurhreppnum, þaðan sem hann er ættaður. Páll er í sambúð með Jóhönnu Höeg Sigurðardóttur og á eina dóttur af fyrra hjónabandi.
„Sveitarfélög gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þau eru sú almannastjórnsýsla sem er næst íbúum á hverjum stað, og sveitarfélögunum hafa verið falin margvísleg stór verkefni, sem eru þess eðlis að ætla megi að þeim farist þau betur úr hendi en öðrum. Til þess að standa straum af öllu þessu, þiggja sveitarfélögin útsvar af íbúum og innheimta ýmis önnur gjöld, s.s. fasteignagjöld. Þessvegna skiptir máli, hvernig sveitarfélögum er stjórnað – að þeim sé stýrt af heilindum og gætni, með góðri yfirsýn og vissri framsýni og með almannahag að leiðarljósi,“ segir Páll í framboðstilkynningu sinni.
„Þetta rímar við grundvallarstefnu Framsóknarflokksins, enda er það félagshyggjuflokkur og frjálslyndur umbótaflokkur sem vill vinna að sameiginlegum viðfangsefnum samfélagsins á grunni jafnaðar og samvinnu. Það er líka ófrávíkjanleg hefð að kjörnir fulltrúar Framsóknarflokksins séu í störfum sínum í góðum tengslum við bæði almenning og grasrót hins fjölmenna og breiðskipaða flokks,“ segir Páll sem undanfarið hefur setið í hverfisráði Sandvíkurhrepps, og verið í stjórn Framsóknarfélags Árborgar.
„Ég brenn fyrir því að Árborg verði áfram góður staður fyrir fólk að búa á, bæði núverandi og verðandi íbúa, að hér sé heilbrigt og öflugt samfélag, með gott skólastarf í öllum byggðakjörnum, að sveitarfélagið styðji eftir megni við menningar-, íþrótta- og félagsstarf, og svo mætti áfram telja,“ segir Páll að lokum í framboðstilkynningu sinni, þar sem hann hvetur einnig alla sem vilja, til að taka þátt í starfi Framsóknarflokksins í Árborg og ekki síst í prófkjörinu þann 12. mars næstkomandi.