Páll Magnússon, 1. þingmaður Suðurkjördæmis, ætlar ekki að gefa kost á sér prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi í næsta mánuði.
Páll tilkynnti þetta á Facebooksíðu sinni í dag.
„Ég komst raunar að þessari niðurstöðu innra með mér strax um síðustu áramót en ákvað samt að leyfa þessum þremur mánuðum að líða áður en ég tæki endanlega ákvörðun; ef eitthvað það gerðist sem kynni að breyta þessari niðurstöðu. Það gerðist ekki,“ segir Páll. „Ég stóð frammi fyrir nákvæmlega sömu spurningu fyrir tæpum 5 árum og þá var svarið já. En nú hefur áhuginn einfaldlega dofnað – neistinn kulnað.“
Páll hefur setið á Alþingi í Suðurkjördæmi fyrir Sjálfstæðisflokkinn síðan 2016. Hann hefur meðal annars sinnt formennsku í atvinnuveganefnd og allsherjar- og menntamálanefnd auk þess sem hann hefur átt sæti í Þingvallanefnd.