Payday er nýbúið að ganga frá fjármögnun þar sem Íslandsbandi fjárfesti í þessu efnilega sprotafyrirtæki og sér fram á mikinn vöxt á komandi mánuðum.
Minni fyrirtæki prófa Payday
„Við erum mjög þakklát fyrir undirtektirnar. Það er greinilegt að mörg minni fyrirtæki eru að leita að tækifærum til að hagræða í rekstri og bókhaldi og hafa prófað Payday undanfarið með góðum árangri, því við sjáum góðan vöxt í skráningum hjá okkur. Hjá okkur er allt á vefnum, svo það er lítið mál fyrir litlu fyrirtækin að prófa án skuldbindinga, það er það sem við höfum séð gerast,“ segir Björn Hr. Björnsson framkvæmdastjóri Payday.
Bókarar benda á Payday
„Bókarar og endurskoðendur eru farnir að benda á Payday, því með því græja einyrkjarnir það sem þeir geta á einfaldan hátt, en síðan geta sérfræðingarnir skráð sig inn og séð um rest. Það hafa orðið miklar breytingar í bransanum undanfarin ár, hlutverk eru að breytast, en samt held ég að það sé bara upphafið að því sem koma skal,“ segir Björn og heldur áfram: „Einföld vefkerfi og öpp eru málið, samtengd kerfi í skýinu sem gefa yfirsýn, senda sjálfvirkt gögn á milli létta mönnum lífið svo mikið að við munum sjá óskilvirkari lausnir og flóknari detta út á næstu árum. Menn senda rafræna reikninga, greiða rafrænt, hver vill þá vera að slétta úr krumpuðum reikningum úr rassvasanum? Menn vilja bara hafa reikningana aðgengilega á vefnum eins og annað.“
Þjálfari á hliðarlínunni í sókninni
Hvað með samstarfið við Stöku? Af hverju er fyrirtæki eins og ykkar að vinna með ytri ráðgjafa?
„Okkur hefur gengið vel undanfarið, liðið er að stækka og því fannst okkur mikilvægt að hafa “þjálfara“ á hliðarlínunni til að peppa okkur áfram í sókninni. Við erum komin með stóran hóp öflugra viðskiptavina sem við erum að þjónusta á hverjum degi, en á sama tíma bíða mörg fyrirtæki eftir nýjungum sem við erum að forrita og mikið af fyrirspurnum. Í svona vaxtarfasa er alltaf hætta á að missa einhverja bolta, hér sjá betur augu en auga og ekki verra að augu Freys hjá Stöku hafa séð ýmislegt hjá öðrum fyrirtækjum í vexti við teljum nýtast okkur vel næstu mánuði.“