Sanddæluskipið Perlan hóf að dæla efni upp úr Landeyjahöfn í morgun. Höfnin hefur verið lokuð í rúman hálfan mánuð.
Ekki hefur verið hægt að sigla upp í Landeyjahöfn síðan 28. september sl. en þá var Perlan biluð og komin í viðgerð í Hafnarfirði. Herjólfur hefur því síðustu vikur siglt til Þorlákshafnar.
Á vef Eyjafrétta kemur fram að gert sé ráð fyrir að það taki fjóra daga að opna höfnina. Ölduspá sé hins vegar ekki góð en Perlan ætti að geta athafnað sig í dag og á morgun og hugsanlega á fimmtudaginn. Eftir það verður ölduhæð líklega of mikil samkvæmt ölduspá. Perlan mun hins vegar bíða færis í Vestmannaeyjum meðan ekki er hægt að dæla vegna ölduhæðar.
Siglingastofnun bauð út sanddælingu við Landeyjahöfn í opnu útboði en tilboð í verkið verða opnuð 21. október næstkomandi.