Persónubundið fyrir hvern og einn hver aðal safngripurinn er

Yngvi Þór Jóhannsson hefur frá því í haust unnið að því að koma á fót tölvunördasafni en þá stofnaði hann hóp á fésbókinni sem heitir einfaldlega Tölvunördasafn.

Á safninu verða tölvur og tölvuleikir frá upphafi heimilistölvunnar, til dagsins í dag og er hugmyndin sú að gestir safnsins geti prófað hinar ýmsu gerðir af tölvum og tölvuleikjum. Þá verða aðrir leikir til sýnis en Yngvi er nú þegar kominn með um það bil 800 tölvuleiki á safnið og talsvert af tölvum.

Yngvi er búsettur í Tjarnarbyggðinni á milli Selfoss og Eyrarbakka en þangað flutti hann árið 2012 ásamt konu sinni, Ingu Dögg Ólafsdóttur en saman eiga þau fjögur börn. Yngvi er uppalinn í Svíþjóð og í Hafnarfirðinum en það kemur kannski engum á óvart að aðal áhugamál Yngva eru tölvur og allt þeim sem tengist.

Tímabært að opna safn
Að sögn Yngva er hann mikill safnari og hefur í gegnum tíðina haldið vel utan um allar tölvur og tölvuleiki sem hann hefur átt. Hann segist oft hafa hugsað það í gegnum tíðina að safna þessum munum á einn stað og leyfa öðrum að rifja upp gamla tíma.

„Mér finnst þessi tími viðeigandi því nú eru allar tölvur og tölvuleikir að fara úr því að maður eigi eintak, pakka, geisladisk og þess háttar yfir í að vera bara liggjandi á netinu án þess að maður fá neitt í hendurnar. Þannig er útgáfa á leikjum með kassa og bókum bara að hverfa.“

Sinclair tölvur og Commodore vélar
„Ég er kominn með flestar leikjavélar sem komið hafa út á Íslandi og nokkrar Sinclair tölvur og tvær Commodore vélar. Þannig að vélarnar sem ég er með núna eru bæði mjög gamlar og svo einhverjar nýrri,“ segir Yngvi og bætir við að hann sé komin með einhverja leiki fyrir flestar þessara leikjavéla.

Flestir munirnir sem eru komnir á safnið eru frá fólki sem var með gamlar vélar, forrit eða leiki í kassa inn í geymslu og vildi koma því í hendurnar á Yngva frekar en að henda þessum munum.

Eðlilega vaknar spurningin um hvort tölvunördasafnið verði eingöngu fyrir tölvunörda. Yngvi segir að flestir hafi gaman af því að rifja upp gamla tíma.

„Grípa aðeins í fjarstýringuna eða pota aðeins í takkana á gömlu tölvunni sem þau fiktuðu í sem krakkar eða unglingar. Svo held ég að það verði mjög persónubundið fyrir hvern og einn hvað er aðalsafngripurinn, þetta er svolítið svona nostalgíutengt. Flestir eru tölvunördar en þeir vita kannski ekki af því,“ segir Yngvi og hlær.

Yngvi vonast til þess að safnið komi til með að rísa í nágrenninu en annars geti safnið verið hvar sem er. „Fólki er velkomið að senda mér hugmyndir í gegnum Facebook vegna þess að þetta er allt í mótun,“ segir Yngvi að lokum.

Fyrri greinStöðvaður eftir hraðakstur á slitnum dekkjum
Næsta greinÞór mætir Haukum í úrslitakeppninni