Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar mun gera það að tillögu sinni að ráða Pétur Georg Markan sem næsta bæjarstjóra. Tillagan verður lögð fram á aukafundi bæjarstjórnar á þriðjudaginn kemur, 2. apríl.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Hveragerðisbæ.
Pétur hefur undanfarin ár sinnt embætti biskupsritara og stýrt samskiptamálum kirkjunnar og verið sem slíkur hluti af yfirstjórn Þjóðkirkjunnar. Þar á undan var Pétur sveitarstjóri Súðavíkurhrepps og leiddi hagsmunabaráttu sveitarfélaga á svæðinu sem formaður fjórðungssambands Vestfjarða og formaður Vestfjarðarstofu.
Áður starfaði Pétur m.a. sem verkefnastjóri á Markaðs- og samskiptasviði Háskóla Íslands. Auk þess hefur hann starfað sem framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands og framkvæmdastjóri Héraðssambands Vestfirðinga.
Pétur lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands, hann hefur tekið þátt í stjórnmálastarfi og sat m.a. á Alþingi sem varamaður fyrir Reykjavíkurkjördæmi norður, þingveturinn 2012-2013. Pétur er fyrrverandi formaður Ungra jafnaðarmanna í Reykjavík. Þá hefur Pétur setið í fjölda stjórna, nefnda og ráða í ýmsum félagasamtökum og innan stjórnsýslunnar.