Stefnt er að því að framleiðsla hefjist að nýju hjá Plastiðjunni í húsnæði á Héðinsgötu í Reykjavík eftir hálfan mánuð. Altjón varð hjá fyrirtækinu að kvöldi 23. nóvember í fyrra þegar eldur kviknaði í Gagnheiði 17 á Selfossi.
„Uppbyggingin hefur gengið mjög vel hjá okkur. Við erum að koma okkur fyrir á Héðinsgötu 2 í Reykjavík með hluta af framleiðslunni sem við vorum með fyrir austan. Við vorum svo heppin að þarna beið eftir okkur húsnæði sem var tilbúið fyrir okkur. Það gerði það að verkum að við vorum mun fljótari að sinna þörfum viðskiptavinum okkar,“ segir Axel Óli Ægisson, framkvæmdastjóri Plastiðjunnar, í samtali við mbl.is.
Allir starfsmenn fyrirtækisins eru búsettir á Selfossi og munu þeir því fara til Reykjavíkur á hverjum degi. Enn á eftir að koma í ljós hvort allir starfsmennirnir kjósi starfa áfram þrátt fyrir breytt fyrirkomulag. „Við erum búin að tryggja það að tryggingin haldist,“ segir Axel Óli.