Póstafgreiðslunni lokað á Klaustri

Póstafgreiðslu Íslandspóst á Kirkjubæjarklaustri verður lokað þann 28. febrúar næstkomandi. Þess í stað verður boðið upp á þjónustu póstbíls.

„Til þessa hefur póstafgreiðsla verið í versluninni og hafa starfsmenn hennar sinnt þeirri afgreiðslu. Við sjáum því ekki fram á að tapa störfum beint vegna lokunar póstafgreiðslu. Kjarval hefur sagt upp samstarfssamningi við Íslandspóst frá og með 1. mars. Við reynum að sýna Íslandspósti skilning í þessum breytingum og leggjum áherslu á að þjónustan, eins og hún er lögð upp að verði, verði jafn góð bæði fyrir dreifbýli og þéttbýli,“ segir Eygló Kristjánsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps þegar leitað var viðbragða hjá henni vegna málsins.

Póstur verður áfram borinn út alla virka daga, bæði í þéttbýli og dreifbýli.

„Af þeim gögnum sem við höfum verður breyting á bögglaþjónustunni þar sem við höfum getað farið í póstafgreiðsluna og sótt pakka sem við fáum senda, og svo að sjálfsögðu farið með okkar sendingar í afgreiðsluna til að koma þeim frá okkur en nú verðum við að hitta á póstmanninn til að móttaka pakka og eins til að senda frá okkur,“ segir Eygló.

Fyrri greinÞór skellti í lás í 3. leikhluta
Næsta greinGestirnir hirtu stigin