Stórum áfanga var náð hjá Póstinum í vikunni en þá var hundraðasta póstboxið sett upp við Krambúðina á Flúðum. Fyrstu póstboxin voru sett upp árið 2015 á höfuðborgarsvæðinu. Framan af voru þau einungis átta talsins en 2020 urðu straumhvörf í verslunarháttum fólks sem kölluðu á nýja tegund póstþjónustu og hefur þróunin verið hröð síðan þá.
„Við fögnum þessum áfanga. Við finnum fyrir því að eftirspurnin eftir þessari þjónustu eykst og við viljum mæta þörfinni þar sem hún er mest. Nú þykir orðið sjálfsagt að hafa aðgang að póstboxi. Með 100 póstboxum hefur myndast þétt net afgreiðslustaða hringinn í kringum landið en við erum hvergi nærri hætt. Markmiðið er bæta við tuttugu póstboxum í viðbót á árinu víðsvegar um landið,“ segir Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Póstsins.
Þegar viðskiptavinir hafa verið spurðir hvaða afhendingarleið þeir kunni best að meta nefna flestir póstboxin. „Fólk talar um að það sé svo þægilegt að geta haft aðgang að póstboxinu hvenær sem er. Þá sé maður hvorki háður opnunartíma né því að vera heimavið á ákveðnum tíma dags til að taka við sendingu,“ segir Þórhildur. „Ég hvet líka fólk til að nýta sér appið og Mínar síður á posturinn.is. Þar er meðal annars hægt að velja það póstbox sem hentar best og fá allar sendingar beint í boxið.“
Sífellt fleiri fyrirtæki og einstaklingar nýta póstbox til að póstleggja sendingar að sögn Þórhildar. „Það er einfalt og má gera hvenær sem er. Þegar sending og kortanúmer hafa verið skráð á Mínum síðum er pakkinn merktur og settur í póstboxið og svo fer hann sína leið,“ segir hún og bætir við að þeim verði ekki aftur snúið sem hafi prófað að nota póstboxin til að póstleggja,“ segir hún.