Postularnir hjóla hringinn

Sautján félagar í Postulunum, Bifhjólasamtökum Suðurlands, lögðu af stað frá Selfossi í morgun og ætla að hjóla hringveginn á næstu dögum.

„Þetta verður vafalaust skemmtileg ferð. Við hjóluðum Vestfirðina í fyrra og eftir það var ákveðið að stofna til einnar hópferðar á ári,“ sagði Guðmundur Kr. Jónsson, Postuli #168, í samtali við sunnlenska.is.

Sautján manns á þrettán hjólum leggja upp í hringferðina þar sem meðal annars verður stoppað á Egilsstöðum og á Vopnafirði. „Síðan er skyldustopp í Mótorhjólasafni Íslands á Akureyri,“ segir Guðmundur.

Postularnir ætla að hjóla 350 til 400 kílómetra á dag og koma heim aftur á mánudag.

Félagsmenn í Postulunum eru vel á annað hundrað, bæði karlar og konur en fimm konur fara með í hringferðina, þrjár hjólandi og tvær sem farþegar.

Félagsheimili Postulanna er við Austurveg 36 á Selfossi og þar hittast félagsmenn á hverjum þriðjudegi yfir sumartímann og hjóla saman.

Fyrri greinNýjar sunnlenskar rófur komnar í verslanir
Næsta grein83 ára hagyrðingur gefur út sína fyrstu bók