„Það er mjög góður andi í hópnum og allir hressir þó við vonum að sjálfsögðu að verkfallið leysist sem fyrst. Við hittumst hér á hverjum degi og berum saman bækur okkar.
Sumir spila bridds, aðrir prjóna, enn aðrir lesa blöðin og síðan ræðum við landsins gagn og nauðsynjar,“ segir Gylfi Þorkelsson, formaður kennarafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Um 90 kennarar við skólann eru nú í verkfalli en verkfallsmiðstöðin er í Hlíðskjálf, félagsheimili hestamanna á Selfossi.
Kennararnir fá sex þúsund krónur í laun úr verkfallssjóði alla daga vikunnar en þá á eftir að taka skatt af upphæðinni.