Prjónaferðin "Knitting and Hiking between Fire and Ice" sem Íslenskir fjallaleiðsögumenn standa að ásamt prjónahönnuðinum Hélene Magnússon fékk um helgina hin árlegu ferðaverðlaun þýska blaðsins Sonntag Aktuell sem veitt eru ár hvert í tengslum við ferðasýninguna CMT í Stuttgart.
Hélène var boðið til Þýskalands til að taka við verðlaununum.
Þema ferðarinnar er íslensk prjónahefð og íslenska ullin. Auk þess að njóta þess að prjóna í íslenskri náttúru sem er síður en svo af verri endanum, er gengið yfir Fimmvörðuháls. Prjónarnir eru teknir upp á völdum stöðum og fléttar Hélène vinnustofum um ólíkar prjónaaðferðir og heimsókn í ullarvinnsluna Þingborg inn í ferðina.
163 tilnefningar voru til verðlaunana í ár og hlutu fimm ólíkar ferðir víðsvegar um heimin verðlaun að þessu sinni. Fimm manna sjálfstæð dómnefnd, skipuð fagfólki og fræðimönnum velur bestu ferðahugmyndirnar ár hvert.
Ferðasýningin CMT er stæsta ferðasýning í Evrópu ætluð almenningi og fær um 225.000 heimsóknir þá dag sem hún stendur.
Íslenskir fjallaleiðsögumenn skipuleggja prjónaferðir allan ársins hring í samstarfið við prjónahönnuðinn Hélène Magnússon, sem er frönsk að uppruna. Hún er einna þekktust fyrir rannsóknir sínar á íslensku rósaleppaprjóni og gaf í því samhengi út bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi sem nú er fáanleg á þremur tungumálum. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum hönnunarsýningum á Íslandi og erlendis og verk eftir hana hafa verið birt í virtum tímaritum svo og bókum.