Próflaus en með skírteinið í vasanum

Lögreglumenn stöðvuðu akstur ökumanns sem ók of hratt á Suðurlandsvegi í Flóa síðastliðið laugardagskvöld.

Maðurinn framvísaði ökuskírteini sínu en við nánari skoðun kom í ljós að hann hafði verið sviptur ökurétti og átti að afhenda ökuskírteini sitt þegar sviptingin fór fram. Það hafði hann hins vegar ekki gert.

Fyrir vikið verður maðurinn kærður fyrir að misnota skjal, sem ökuskírteinið telst vera. Slíkt varðar sekt eða allt að 6 mánaða fangelsi.

Auk þessara brota lék grunur á að maðurinn væri undir áhrifum ólöglegra ávana- og fíkniefna.

Fyrri greinÁ ótryggðum bíl á fölskum númerum
Næsta greinBílahönnuðir kepptu í BES