Lögreglan á Suðurlandi stöðvaði 33 ökumenn vegna hraðaksturs í liðinni viku.
Flestir þeirra voru á ferðinni í kringum Vík og Klaustur, 24 talsins. Níu voru kærðir fyrir hraðakstur í Árnessýslu.
Þá voru höfð afskipti af ökumanni 19 farþega hópbifreiðar en rekstrarleyfi viðkomandi fyrirtækis reyndist útrunnið. Lögreglan afgreiddi málið til ákærusviðs til sektarákvörðunar.
Einn ökumaður er kærður fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiðar sinnar á Selfossi í vikunni.
Þá var ökumaður á Selfossi kærður sitt hvorn daginn fyrir að aka sitt hvoru ökutækinu sviptur ökurétti. Hann hefur áður gerst sekur um sambærileg brot og bíða mál hans útgáfu ákæru vegna þess fjölda mála sem hann hefur á sinni könnu, að því er fram kemur í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.