Samningar um sölu á Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða eru í burðarliðnum. Heimildir Sunnlenska segja að fyrirtækinu verði skipt upp að því loknu.
Borgarverk í Borgarnesi sé kaupandi jarðvinnu og klæðningarhlutafyrirtækisins og horfi til þess að efla þá starfsemi enn frekar.
Fyrirtæki í eigu Jóhanns Ólafssonar í Reykjavík er sagt kaupandi jarðborunarhluta fyrirtækisins. Eftir því sem heimildir segja verður reksturinn áfram til húsa í Gagnheiði á Selfossi, og salan á ekki að hafa áhrif á stöðu almennra starfsmanna fyrirtækisins.
Til skamms tíma stóð til að fyrirtækið Jarðboranir myndi kaupa Ræktunarsambandið en sá samruni rann út í sandinn. Steinn Sveinsson, framkvæmdastjóri Ræktó sagði hlutina á viðræðustigi og var ekki tilbúinn að tjá sig um málið að svo stöddu. Kauptilboði hefur þó verið tekið.
Ræktunarsambandið var stofnað árið 1946 af bændum í fimm hreppum á Suðurlandi, og hefur verið umsvifamikið í verktakastarfsemi um áratugaskeið.