Rætt um hvort heimanám sé of mikið eða of lítið

„Heimanám er eitt af mörgu í skólastarfi grunnskólanna sem hefur verið rætt í fræðslunefnd Árborgar og þar hafa verið nefnd dæmi um heimanám sem hefur íþyngt einstaka nemendum.

Þá hefur opinber umræða um heimanám verið töluverð að undanförnu í fjölmiðlum sem er gott. Því var ákveðið að taka þetta á dagskrá fundar í fræðslunefnd nýverið og skólarnir hvattir til að taka heimanám til opinnar umræðu og móta stefnu í hverjum skóla þar sem áhersla sé helst á einstaklingsmiðað heimanám,“ segir Þorsteinn Hjartarson, fræðslustjóri í Sveitarfélaginu Árborg, spurður út í heimanámið og umræður fræðslunefndar um það.

Þorsteinn segir að þegar foreldrar í Árborg voru spurðir á síðasta skólaári, í könnun Skólapúlsins, um hvort heimanám sé of mikið, hæfilegt eða of lítið svöruðu 76,7% því til að það sé hæfilegt, en slíkt var fyrir ofan landsmeðaltal.

„Sumir svara hins vegar á þann veg að það sé of mikið og aðrir að það sé of lítið. Það gefur okkur að sjálfsögðu tilefni til að fjalla um heimanámið á gagnrýninn hátt út frá ýmsum sjónarhornum,“ segir Þorsteinn. Í því sambandi þurfi að leggja áherslu á að verkefnið sé unnið í góðu samstarfi kennara, foreldra og nemenda.

Þorsteinn segir mestu skipta að heimanámið skapi áhuga, góðar námsvenjur og samveru foreldra og barna. Það má ekki skapa námsleiða og hafa truflandi áhrif á fjölskyldu- og félagslíf,“ segir hann.

Íþyngir nemendum og fjölskyldum þeirra
Á fundi fræðslunefndarinnar um miðjan síðasta mánuð kom fram að ef rangt er staðið að heimanámi geti það íþyngt nemendum og fjölskyldum þeirra. Í umræðum kom fram að nefndin hvetji skólastjóra til að nýta nýjustu menntarannsóknir á hverjum tíma í skólastarfinu, þá ekki síst rannsóknir sem til eru um þátttöku foreldra í skólastarfi og heimanámi.

Slíkt verði að taka til opinnar umræðu í skólasamfélaginu og móta stefnu í hverjum skóla. Einstaklingsmiðað heimanám, svo sem í lestri, getur stuðlað að bættum námsárangri og verið jákvæður hluti af fjölskyldulífinu.

Fyrri greinNý sýning undir stiganum
Næsta greinÍbúafundur á Hellu í kvöld