Ráðist gegn villiköttum í Hveragerði

Bæjarráð Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi sínum að skera upp herör gegn villiköttum og ómerktum köttum í bænum.

Bæjaryfirvöldum og dýraeftirlitsmanni hafa borist fjöldi kvartana vegna ónæðis sem íbúar verða fyrir vegna annarra manna katta og jafnvel villikatta.

Bæjarráð samþykkri á síðasta fundi sínum að fela dýraeftirlitsmanni þegar í stað að fækka villiköttum og ómerktum köttum í samræmi við reglur Hveragerðisbæjar þar um.

Ennfremur er ítrekað að verði ekki þegar í stað viðhorfsbreyting varðandi skráningu katta og ágangi þeirra hjá nágrönnum er ljóst að grípa þarf til enn harðari aðgerða til framtíðar litið.

Í minnisblaði bæjarstjóra um málið kemur fram að köttum virðist hafa fjölgað í Hveragerði án þess að skráðum köttum hafi fjölgað að sama skapi. Einungis er leyfilegt að halda tvo ketti á hverju heimili og skulu þeir allir vera örmerktir.

Fyrri greinEden mótið hefst í dag
Næsta greinVaka sigraði á 72. mótinu