Stjórn Vatnsveitu Rangárþings ytra og Ásahrepps hefur ákveðið að ráðast í átak gegn sóun á vatni. Um vaxandi vandamál er að ræða hjá vatnsveitunni.
Þar er um að ræða óskráðar lagnir út frá aðallögn í úthaga, svokallaða spena, þar sem sírennsli er á vatninu. Hefur þetta fyrirkomulag í för með sér óheyrilega sóun á vatni og mikinn aukakostnað fyrir veituna og þar með eigendur hennar; fólkið í sveitarfélögunum tveimur.
Á aðalfundi vatnsveitunnar í gær var ákveðið að ráðast í átak til fræðslu á þessu til að notendur gæti þess í hvívetna að fara vel með þá miklu auðlind sem vatnið er og láta það ekki renna í sífellu til brynningar eða annarrar notkunar, heldur brúka þar til gerðan búnað.
Ný stjórn var skipuð á aðalfundinum í gær en hana skipa þeir Þorgils Torfi Jónsson, Guðmundur Harðarson og Karl Ölvirsson, sem er fulltrúi Ásahrepps í stjórninni. Nanna Jónsdóttir er til vara fyrir hann.
Rekstur Vatnsveitunnar gengur vel en hagnaður af rekstri síðasta árs er rúmlega 2.7 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að tekjur næsta árs hækki um tíu milljónir, eða í 46 milljónir, og hagnaður verði um 10 milljónir.
Frá þessu er greint á heimasíðu Ásahrepps