Ráðherra fellst ekki á friðun

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að synja að svo stöddu tillögu húsafriðunarnefndar um friðun Skálholtsskóla, Skálholtskirkju og nánasta umhverfis.

Hefur ráðherra farið þess á leit við nefndina að hún taki málið til efnislegrar meðferðar með hefðbundnum hætti áður en afstaða verður tekin til tillögu um friðun.

Húsafriðunarnefnd ákvað 8. nóvember að skyndifriða Skálholtskirkju, Skálholtsskóla og nánasta umhverfi. Sagði framkvæmdastjóri nefndarinnar þá, að það þýddi að stöðva yrði framkvæmdir við endurbyggingu Þorláksbúðar við kirkjuna.

Fram kemur á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins, að húsafriðunarnefnd hafi lagt það til í bréfi dagsettu 16. nóvember að húsin á Skálholti og nánasta umhverfi þeirra verði friðuð.

Fyrri grein„Algjört virðingarleysi við náttúruna“
Næsta greinÞrefalt meiri framleiðsla en hjá íslenskum bændum