Ráðherra gerði víðreist um Suðurland

Forsætisráðherra Kína, Wen Jiabao, gerði í dag víðreist um Suðurland þar sem hann kom meðal annars við á Þingvöllum, Geysi, Kjóastöðum og í Hveragerði.

Á Þingvöllum var sérstaklega kynnt jarðfræði og jarðsaga svæðisins, auk þess sem Ólafur Örn Haraldsson, þjóðgarðsvörður, sagði frá upphafi Alþingis, menningu og sögu. Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur var leiðsögumaður í ferð dagsins um jarðfræðileg efni og jarðsögu.

Á ferð milli Gullfoss og Geysis var komið við á Kjóastöðum II. Þar tóku húsráðendur, Ása Viktoría Dalkarls og Hjalti Gunnarsson á móti forsætisráðherrunum á hestum við heimreið að bænum og riðu í bílalestinni heim að íbúðarhúsinu. Forsætisráðherrunum var boðið til stofu og upp á pönnukökur að íslenskum sið. Forsætisráðherra Kína ræddi við húsráðendur og börn þeirra um landbúnað og búskapinn. Eftir stutt spjall um landbúnað á Íslandi var farið í gripahús þar sem hestar, fé og landnámshænur voru skoðuð.

Að Geysi var jarðhitasvæðið skoðað og síðan snæddur hádegisverður á Hótel Geysi. Ekki var hægt að koma við í Kerinu vegna takmarkana landeigenda á aðgengi hópa.

Ekið var til Hveragerðis þar sem tekið var vel á móti forsætisráðherra Kína við Hveragarðinn. Þar var forsætisráðherranum kynnt svæðið og skoðaðar þær jarðmyndanir og hverir sem þar eru innan bæjarmarkanna, auk þess sem gestir gæddu sér á Kjörís. Að lokum var komið við á veitingastaðnum Kjöt og Kúnst þar sem smakkað var á gufubökuðu brauði og skoðað ofan í útipottana.

Lokaáfangi dagsins var í Hellisheiðarvirkjun, en þar tók utanríkisráðherra, starfandi iðnaðarráðherra á móti ráðherranum ásamt forstjóra Orkuveitunnar, Bjarna Bjarnasyni. Eftir kynningu og skoðun á orkuverinu og jarðhitasvæðinu var haldin málstofa þar sem Ingvar Birgir Friðleifsson, skólastjóri Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, ásamt átta meistara- og doktorsnemum við skólann, tók þátt í umræðum um jarðhitanýtingu á Íslandi og námið við skólann. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir, prófessor í jarðvísindum við Háskóla Íslands, Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands og Málfríður Ólafsdóttir umhverfisfræðingur sátu einnig málstofuna og tóku þátt í umræðum.

Eftir að málstofunni lauk skoðaði forsætisráðherra Kína og hluti sendinefndar vélasal og tæknirými virkjunarinnar í fylgd forstjóra Orkuveitunnar og utanríkisráðherra.

Opinberri heimsókn Wen Jiabao lýkur á morgun, en hann heimsækir Þýskaland, Svíþjóð og Pólland í fjögurra landa heimsóknarferð sinni til Evrópu að þessu sinni.

Fyrri greinSelfoss lagði KR
Næsta greinDeilt um staðsetningu embættis