Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga vill að umhverfisráðuneytið dragi til baka ákvörðun sína um lokun sorporkustöðvarinnar á Kirkjubæjarklaustri og heimili Skaftárhreppi að reka stöðina næstu tvö árin.
Samþykkti stjórnin ályktun þess efnis nýverið. Í ályktuninni kemur fram að sveitarfélagið muni nýta þann tíma til að leita varanlegra lausna á þeim vanda sem við er að glíma.
Hvetur stjórnin ráðuneytið til að taka tillit til bágrar fjárhagsstöðu Skaftárhrepps sem hefur jafnframt þurft að glíma við margvíslegan vanda í kjölfar eldsumbrota á síðustu árum.
Sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur ítrekað ósk sína við ráðherra að hún endurskoði ákvörðun sína og veiti undanþágu til tveggja ára til reksturs stöðvarinnar á meðan safnað verði fyrir kaupum á nýjum brennsluofni í stöðina.
Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagðist í samtali við Sunnlenska ekki geta gefið upp um úrslit málsins, en það kom til skoðunar hjá henni þann 11. janúar. Hún segist munu greina frá niðurstöðu sinni á næstu dögum.
„Við bíðum bara róleg en vonandi verður svarið jákvætt,” sagði Guðmundur Ingi Ingason, oddviti sveitarstjórnar í samtali við Sunnlenska.