Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, heimsótti fuglafriðlandið í Flóanum í gær í boði Fuglaverndar.
Svandísi var boðið í tilefni af alþjóðlegu ári líffræðilegrar fjölbreytni en samtökin Bird Life International taka sig saman um að bjóða ráðamönnum um allan heim að skoða sérstök svæði á borð við fuglafriðlandið.
Jón Hjartarson, formaður bæjarráðs, gerði það að síðasta embættisverki sínu að taka á móti Svandísi ásamt stjórn Fuglaverndar. Jón kynnti fyrir ráðherra möguleikana sem friðlandið og Flóinn allur býður uppá í ferðamennsku og ítrekaði að mikilvægt væri að vernda svæðið.
Að því loknu fræddi Jóhann Óli Hilmarsson, stjórnarmaður í Fuglavernd, Svandísi um svæðið áður en haldið var af stað í göngu um friðlandið.