Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra og starfsbróðir hans frá Eistlandi, Urmas Paet, funduðu í Litlu kaffistofunni í Svínahrauni í dag og heimsóttu síðan Hveragerði.
Á fundinum í Litlu kaffistofunni greindi Össur Paet frá því að Íslendingar munu gerast aðilar að netöryggissetri Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem starfrækt er í Eistlandi. Setrið er öndvegissetur sem safnar nýjustu þekkingu og aðferðum í baráttunni við tölvuglæpi og netárásir.
„Þetta er í anda í þeirrar samstöðu sem myndast hefur á Alþingi um að efla varnir gegn netárásum. Við teljum rétt að vera í sem nánustu og bestu samstarfi við þá sem hafa mesta þekkingu á þessu sviði, til að styrkja öryggi þjóðarinnar,“ segir Össur í tilkynningu frá Utanríkisráðuneytinu.
„Utanríkisráðherra Eistlands hvatti okkur til þess á fyrri fundi að ganga til liðs við setrið, við könnuðum málið og þetta er niðurstaðan,“ segir ráðherra ennfremur.
Á fundinum ræddu ráðherrarnir einnig samstarf ríkjanna á ýmsum sviðum. Náin vinátta og aukið samstarf Íslands og Eistlands birtist meðal annars í samvinnu um rekstur sendiráðs í Peking. Í umræðu sinni um alþjóðamál, lýstu báðir áhyggjum af stöðu mála í Norður Kóreu.
Að fundinum í Litlu kaffistofunni loknum, kynnti ráðherra starfsbróður sínum möguleika jarðhitans og þeir kynntu sér einnig starfsemi Garðyrkjuskólans í Hveragerði og heimsóttu gróðurhús.