Nú um miðjan september hefjast framkvæmdir við gerð gangstíga og annarrar aðstöðu við Hjálparfoss í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar var tillaga að framkvæmdinni lögð fram og þar lá einnig fyrir umsögn Umhverfisstofnunar sem gerði ekki athugasemdir við framkvæmdina.
Að sögn Kristófers Tómassonar, sveitarstjóra, er um að ræða framkvæmdir sem sannarlega eru nauðsynlegar.
„Það verða smíðaðir veglegir gangstígar og útsýnispallar á svæðinu sem liggur að fossinum. Ferðamannastraumur að Hjálparfossi hefur vaxið mjög á undanförnum árum rétt eins og um Þjórsárdalinn allan. Þetta verður því mikil framför fyrir svæðið,“ segir Kristófer.
Áætlað er að framkvæmdin kosti á bilinu fjórar til fimm milljónir króna en sveitarfélagið fær styrk vegna hennar úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.