Þann 12 . október næstkomandi eru 100 ár síðan eldgos hófst í megineldstöðinni Kötlu í Mýrdalsjökli. Kötlugosið 1918 var eitt af stærri eldgosum í Kötlu og fylgdu jökulhlaup og öskufall á stóru landssvæði umhverfis eldstöðina.
Í tilefni þess að öld er liðin frá gosinu, verður þess minnst með veglegri ráðstefnu í Vík í Mýrdal dagana 12.-13. október. Til umfjöllunar verður megineldstöðin Katla og áhrif hennar á náttúru og samfélag á Suðurlandi.
Ráðstefnan hefst með innritun kl 9:00, föstudaginn 12. október og verða erindi flutt af helstu sérfræðingum landsins sem best þekkja til og hafa rannsakað Kötlu. Vísindin verða færð til almennings og verða helstu umfjöllunarefni ráðstefnunar áhrif Kötlu á landslag, náttúrufar og mannlíf á svæðinu.
Einnig verða til sýnis veggspjöld frá Jarðfræðafélagi Íslands og munu sérfræðingar frá Veðurstofu Íslands mæta með vöktunarbúnað og segja frá því hvernig fylgst er með Kötlu í dag.
Þann 13. október verður svo farið í stutta 3-4 klst skoðunarferð með leiðsögn um svæðið þar sem ummerki eftir gosið verða skoðuð.