Teymi héraðsráðunauta alls staðar að af landinu munu í dag og á morgun fara á bæi á öskufallssvæðum, ræða við bændur og meta með þeim aðstæður.
Það eru Búnaðarsamband Suðurlands, Bændasamtökin og búnaðarsambönd um allt land sem standa að skipulagningu heimsókna ráðunauta auk sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Alls munu rúmlega 20 ráðunautar koma að verkefninu frá flestum búnaðarsamböndum og BÍ. Ekki verður eingöngu farið á bæi þar sem öskufalls hefur orðið vart heldur einnig á svæði í nágrenni hamfaranna.
Í heimsóknunum verður m.a. farið yfir stöðuna á viðkomandi bæjum, úrræði Bjargráðasjóðs, húspláss, fóðurbirgðir og fóðurþörf ef gosið dregst á langinn. Í teymunum eru fagráðunautar á ýmsum sviðum, m.a. jarðrækt og búfjárrækt.
Vettvangsstjórn verður á Höfðabrekku en þar geta bændur náð í hópstjóra í síma 863-4300 ef sértækar óskir eru um heimsóknir ráðunauta eða annað.