Ráðherra heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðurlands

Alma Möller heilbrigðisráðherra heimsótti HSU á Selfossi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Alma D. Möller, heilbrigðisráðherra, heimsótti í gær Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi, kynnti sér starfsemina á ýmsum einingum stofnunarinnar, ræddi við starfsfólk og fundaði með stjórnendum.

Íbúar í heilbrigðisumdæminu eru um 34.000. Á starfssvæði HSU eru níu heilsugæslustöðvar og sjúkrahúsþjónusta er rekin á tveimur stöðum, þ.e. á Selfossi og í Vestmannaeyjum. Stofnun rekur einnig 145 hjúkrunarrými á hjúkrunarheimilinu Móbergi á Selfossi, í Hraunbúðum í Vestmannaeyjum, og við heilbrigðisstofnanirnar á Selfossi og í Eyjum. Við HSU starfa rúmlega 800 starfsmenn í um 550 stöðugildum. Forstjóri stofnunarinnar er Díana Óskarsdóttir.

Með ráðherra í för voru Ásta Valdimarsdóttir ráðuneytisstjóri, Ása Berglind Hjálmarsdóttir alþingismaður, Ragna Sigurðardóttir alþingismaður og læknir og Arnar Þór Ingólfsson, starfsmaður þingflokks Samfylkingarinnar.

Það skorti ekki umræðuefni á fundi ráðherra með stjórnendum, enda fjölbreytt og stór verkefni sem stofnunin sinnir með það meginmarkmið að veita íbúum heilbrigðisumdæmisins örugga og góða þjónustu. Það er viðvarandi verkefni stofnunarinnar að tryggja fullnægjandi mönnun á öllum sviðum starfseminnar. Um þetta var rætt og einnig um húsnæðismál stofnunarinnar þar sem úrbóta er þörf og áskoranir sem fylgja mikilli ferðamennsku í umdæminu sem óhjákvæmilega eykur álag og eftirspurn eftir þjónustu HSU. Síðast en ekki síst var rætt um ýmis gæða og þróunarverkefni sem stofnunin vinnur að, ekki síst til að sinna þjónustu við aldraða og langveika með sem bestum hætti.

Fjarvöktun og heimaspítali
Meðal nýjunga hjá HSU er fjarvöktun þar sem heilbrigðistækni er nýtt til að sinna eftirliti með einstaklingum í heimahúsum sem glíma við tiltekin heilsufarsvandamál. Viðkomandi framkvæma mælingarnar sjálfir með einföldum tækjabúnaði sem stofnunin útvegar, í stað þess að þeir þurfi að leggja land undir fót til að fara í nauðsynlegt eftirlit á heilbrigðisstofnun. Mælingarnar berast starfsfólki HSU sem fylgist með á skjá á starfsstöð sinni og bregst við ef eitthvað ber út af sem þarf að grípa inn í með ráðgjöf eða vitjun.

Í byrjun árs 2023 hófst þróunarverkefni um heimaspítala HSU þar sem meginmarkmiðið er að styðja fólk til sjálfstæðrar búsetu þrátt fyrir veikindi, fækka innlögnum á sjúkrahús, stytta innlagnartíma og síðast en ekki síst að auka öryggi sjúklinga og bæta lífsgæði þeirra. Heimaspítalinn sinnir einstaklingum sem uppfylla ákveðin skilmerki um þörf þjónustuna sem felur í sér læknis- og hjúkrunarþjónustu í heimahús. Fjarvöktunin og heimspítalinn styðja að töluverðu leyti við sama sjúklingahópinn. Reynslan af báðum þessum verkefnum hefur verið góð og er stefnt að því að efla þau á komandi misserum.

Heimaspítali HSU var kynntur í heimsókninni. Ljósmynd/Stjórnarráðið
Ráðherra ræddi við starfsfólk á HSU á Selfossi. Ljósmynd/Stjórnarráðið
Fyrri greinFjórföldun á stuðningi við Guðrúnu
Næsta greinÖruggur sigur á heimavelli