Rafleiðni hækkar í Skálm

Jökulhlaup í Skálm. sunnlenska.is/Marinó Fannar Garðarsson

Rafleiðni hefur farið hækkandi í Skálm frá því seinnipartinn í gær og mælist nú um 260 µS/cm, sem er óvenju hátt, en vatnshæðin hefur haldist nokkuð stöðug. Einnig hafa mælst hækkuð gildi H2S við upptök Múlakvíslar.

Veðurstofan vill biðja fólk um að sýna aðgát við upptök ánna og nærri árfarvegunum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.

Enginn hlaupórói mælist að svo stöddu á jarðskjálftamælum við Mýrdalsjökul eins og mældist hlaupinu í Skálm þann 27. júlí síðastliðinn. Því gæti verið að nú sé um hægan leka jarðhitavatns undan jöklinum að ræða. Mögulega á rennsli þó eftir að aukast enn frekar og þróast út í jökulhlaup.

Náttúruvárvakt VÍ mun halda áfram að vakta svæðið ásamt því að vera í sambandi við aðila á staðnum og upplýsa um markverðar breytingar sem gætu orðið.

Hér fyrir neðan er mynd sem Mýrdalsjökul og umhverfi ásamt staðsetningu mælanna en bláir mælar eru vatnamælar og grænir jarðskjálftamælar.

Fyrri greinLoksins sigur hjá Ægi – Selfyssingar fengu skell
Næsta greinLátið bílinn í friði ef þið fáið ykkur í glas