Rafleiðni hefur farið hækkandi í Leirá-Syðri og í Skálm í Skaftárhreppi síðustu daga. Veðurstofan telur líklegast að um sé að ræða hægan leka jarðhitavatns undan jöklinum.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni er fólk beðið um að sýna aðgát við upptök ánna og nærri árfarvegum þar sem gasmengun gæti verið á svæðinu.
Engar tilkynningar um brennisteinslykt hafa borist Veðurstofu en náttúruvárvakt VÍ mun halda áfram að vakta svæðið.
Síðan stóra hlaupið í Skálm varð í lok júlí hafa þrír minni atburðir átt sér stað í ánni með hækkun á rafleiðni og vatnshæð, og er þetta sá fjórði í röðinni.