Rafmagn komið aftur á í Landeyjum og Árborg

Eins og sunnlenska.is greindi frá í morgun varð rafmagnslaust í Vestur-Landeyjum um kl. 10 í morgun. Þar tókst að koma rafmagni aftur á en hluti svæðisins var rafmagnslaus til kl. 16:20 í dag.

Gera þurfti hlé á viðgerðum milli kl. 12-15 í dag vegna eldingahættu en ekki þykir óhætt fyrir starfsfólk RARIK að vinna við loftlínur í slíkum aðstæðum. Viðgerðir hófust aftur rétt eftir klukkan 15.

Vindálag, selta og eldingar hafa valdið tjóni víða í kerfinu; staurar hafa brotnað, línur slitnað og eldingar valdið tjóni.

Meðal annars þurfti að taka rafmagn af við Holtsveg í Stokkseyrarhreppi, á milli Brattsholts og Keldnakots, í morgun vegna þess að línan lá á veginum. Þessari aðgerð er lokið og rafmagn komst aftur á kl. 15:56.

Óveðrið hafði mest áhrif á Vesturlandi, Suðurlandi og Austurlandi en lítið hefur verið um truflanir í dreifikerfi RARIK á Norðurlandi.

Síðan óveðrið hófst hafa einnig orðið ýmsar truflanir í flutningskerfinu sem höfðu áhrif á dreifikerfi RARIK, en þær hafa varað stutt.

Fyrri greinRafmagnstruflanir víða á Suðurlandi
Næsta greinViðburðaríkur sólarhringur hjá björgunarsveitunum