Rafmagni sló út víða sunnanlands laust eftir klukkan 20 í kvöld og rafmagnstruflanir hafa orðið víða, vegna eldinga. Búast má við þrumum og eldingum fram eftir kvöldi.
Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landsnets eru rafmagnstruflanirnar líklega eldingaveðrinu um að kenna. Unnið er að því að koma rafmagni á aftur.
Sunnlendingar hafa orðið varir við eldingar og kraftmiklar þrumur frá því laust eftir kl. 19:30 í kvöld, m.a. í Ölfusi, Flóanum og á Rangárvöllum.
Lægðardrag er að fara yfir landið með mikilli úrkomu og fylgja því kröftugar skúrir. Reikna má með að lægðardragið fari yfir í kvöld og má því búast við þrumum eitthvað fram eftir kvöldi, að sögn Veðurstofunnar.
Hér að neðan er myndband sem sýnir eldingu lýsa upp himininn yfir Sandvíkurhreppi kl. 19:40 í kvöld. Eldingin er spiluð þrisvar og hægt á myndskeiðinu í tvö síðari skiptin.