Rafmagnslaust í Rangárþingi

Rafmagn fór af Þykkvabæ og upp í Holta- og Landsveit um klukkan 20:20 í kvöld samkvæmt upplýsingum frá bilanavakt RARIK. Vegna þessa er hitaveitan í sýslunni ekki á fullum afköstum.

Rafmagn kom afur á Þykkvabæ um klukkan tíu en enn er rafmagnslaust annars staðar. Ekki liggur fyrir hvenær rafmagn kemst á aftur á öllu svæðinu en vonast er til þess að það verði eftir skamman tíma.

Orkuveita Reykjavíkur tilkynnti í kvöld, að hitaveitan í Rangárvallasýslu væri ekki á fullum afköstum vegna rafmagnsleysisins. Hitaveitan þjónar meðal annars Hellu og Hvolsvelli.

Búast má við að þrýstingur fari að minnka í kerfinu og þegar eru nokkrir bæir í dreifbýlinu orðin heitavatnslitlir. Gert er ráð fyrir að heitt vatn komist á að fullu að nýju um leið og rafmagn kemst á. Varaafl heldur nokkrum þrýstingi en hratt gengur á vatn í tönkum.

Íbúum er ráðlagt að hafa glugga og dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur og fara almennt spart með heita vatnið. Hugsanlegt er að grípa þurfi til skömmtunar og verða þá sundlaugar fyrst fyrir skertri afhendingu á heitu vatni.

Fyrri greinBlindaðist og valt
Næsta greinEinar selur Kanann