Eldur kom upp í spennistöð við Ljósafossskóla í Grímsnesi á fimmta tímanum í nótt. Rafmagnslaust er við austanvert Þingvallavatn vegna þessa.
Samkvæmt upplýsingum frá RARIK var ekki mikill eldur í spennistöðinni. Slökkvilið Brunavarna Árnessýslu á Selfossi var kvatt út kl. 4:26 í nótt og réðu slökkviliðsmenn niðurlögum eldsins á skömmum tíma.
Frá því eldurinn kom upp hefur verið rafmagnslaust frá Ljósafossi og norður úr, við austanvert Þingvallavatn. Búist er við að viðgerð verði lokið milli kl. 10 og 11 í dag.