Rafmagnslína slitnaði og olli sinubruna

Rafmagnslína norðan Eyrarbakkavegar, við Litla-Hraun, slitnaði klukkan hálf tvö í dag og olli töluverðum sinubruna. Slökkvistarf stendur enn yfir.

Rafmagni sló út á stórum hluta í nágrenninu þegar línan gaf sig, m.a. á Eyrarbakka, hluta Selfoss og í Sandvíkurhreppi.

Línan er í lítilli notkun en hún flytur rafmagn vestur í Ölfus og gegnir hlutverki varalínu. Ekki er ljóst hvað olli því að línan slitnaði en hægviðri er á Eyrarbakka. Línan er komin til ára sinna en hún var reist um miðja síðustu öld.

Allt tiltækt slökkvilið á Selfossi og Stökkseyri auk slökkviliðsmanna í Þorlákshöfn var kallað út. Að auki standa heimamenn í slökkvistarfi og nota meðal annars mykjudreifara.

Á að giska þrír hektarar brunnu og höfðu menn m.a. áhyggjur af hestum í beitarhólfi í næsta nágrenni. Þeir voru þó hinir rólegustu þegar sunnlenska.is ók af vettvangi.

Fyrri greinLaugdælir upp í 1. deild
Næsta greinÁstand skepna ótrúlega gott