Nokkrir rafmagnsstaurar brotnuðu í eldingaveðrinu á Rangárvöllum sl. fimmtudagskvöld auk þess sem eldingavari eyðilagðist í aðveitustöð Landsnets á Hvolsvelli.
Rafmagnslaust verður á Hvolsvelli, í Fljótshlíð og hluta Landeyja og Rangárvalla í nótt, aðfaranótt 13. janúar. Rafmagnið verður tekið af kl. 01:00 og má búast við því að verði rafmagnslaust framundir klukkan 5:00, vegna vinnu í aðveitustöðinni.
Að sögn Lárusar Einarssonar, deildarstjóra netreksturs Rarik á Suðurlandi, þurfti að aftengja skemmdan eldingavara eftir þrumuveðrið en í nótt á að skipta um alla eldingavarana og setja upp nýja. Í veðrinu brotnuðu einnig nokkrir staurar rétt við aðveitustöðina á Hvolsvelli, á Hvolsvallarlínu sem er 66kV lína frá Búrfelli á Hvolsvöll.
Eftir að eldingunni sló niður varð rafmagnslaust á stærstum hluta Suðurlands í allt að þrjár klukkustundir, frá Flóahreppi og austur í Mýrdal og í Vestmanneyjum. Rangæingar urðu varir við mikil læti áður en rafmagnið fór af en hús á Hvolsvelli nötruðu í hljóðbylgjunni frá þrumunni.
Í eldingaveðrinu brotnuðu nokkrir staurar rétt við aðveitustöðina á Hvolsvelli. sunnlenska.is/Gunnar Karlsson