Vegna óveðursins hefur orðið töluvert af truflunum í dreifikerfi RARIK. Vindálag á dreifikerfið hefur verið gríðarlegt og hefur á einhverjum stöðum brotið staura. Einnig getur mikill vindur valdið samslætti á línum og mikið eldingaveður í gærkvöldi olli tjóni á einhverjum stöðum.
Rafmagnslaust varð í Landbroti í gærkvöldi kl. 18:42 og tókst að koma rafmagni þar á aftur í nótt kl. 1:30. Skemmdir eru á línunni og ljóst að þar þarf að fara fram viðgerð þótt rafmagn hafi haldist inni.
Í Selvoginum varð rafmagnslaust kl. 19:11 í gærkvöldi og tókst að koma rafmagni þar á kl. 00:30.
Um kl. 10 í morgun fór svo rafmagn af í Vestur-Landeyjum. Bilanaleit mun fara fram um leið og framkvæmdaflokkur kemst á svæðið.
Eldingaveður hefur tafið bilanaleit og mun gera það áfram í dag þar sem eldingaveðri er spáð á þeim svæðum þar sem bilanir hafa orðið.
Í tilkynningu frá RARIK er fólk hvatt til að fara varlega í þessum veðurham og láta stjórnstöð RARIK vita í síma 528 9000 ef það sér slitnar línur eða brotna staura. Best er að halda sig í öruggri fjarlægð frá slíkum skemmdum.